Tilkynnt var um stórfellda líkamsárás við knæpu í Kópavogi og var einn fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Málið er í rannsókn en ekki koma fram frekari upplýsingar um málið í skeyti lögreglu nú í morgunsárið.
Í miðborginni var maður handtekinn fyrir að hafa slegið dyravörð hnefahöggi þegar verið var að vísa honum út. Málið var afgreitt með skýrslutöku á lögreglustöð og var maðurinn látinn laus að því loknu.
Í miðborginni var einnig tilkynnt um mann sem svaf ölvunarsvefni á skemmtistað. Hann brást illa við að vera vakinn, neitaði að gefa upp persónuupplýsingar og hafði uppi ógnandi tilburði. Hann var handtekinn og vistaður í fangaklefa þar til rennur af honum.
Þá var tilkynnt um líkamsárás við verslunarmiðstöð í umdæmi lögreglustöðvar 3, sem sinnir Kópavogi og Breiðholti. Báðir ætlaðir gerendur og þolandi voru farnir af vettvangi þegar lögreglu bar að garði.
Í sama umdæmi var lögregla kölluð til vegna umferðarslyss en þar hafði bifreið verið ekið á ljósastaur. Ökumaður reyndist ölvaður við akstur og var hann fluttur á lögreglustöð til vistunar vegna rannsóknar málsins.
Og í umdæmi lögreglustöðvar 4, sem sinnir Grafarvogi, Mosfellsbæ og Árbæ, var tilkynnt um mögulega framleiðslu fíkniefna í iðnaðarhúsnæði. Það reyndist á rökum reist og er málið í rannsókn.