Lilja Katrín Gunnarsdóttir, bakstursdrottning og einn þáttastjórnenda í Bítinu á Bylgjunni, stóð í stórræðum í september árið 2016 þegar hún bakaði í sólarhring frá laugardegi til sunnudags. Henni til halds og trausts var eiginmaður hennar Guðmundur Ragnar Einarsson og fór maraþonið fram á heimili þeirra á Kársnesinu í Kópavogi undir styrkri verkstjórn bakstursbloggsins Blaka, blaka.is og safnaðist rúm hálf milljón fyrir Kraft, félag ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein.
Nú, níu árum síðar, ætla hjónin að endurtaka leikinn og baka í sólarhring frá klukkan 12 á hádegi laugardaginn 6. september til klukkan 12 á hádegi sunnudaginn 7. september til styrktar Berginu headspace. Maraþonið í ár fæðist þó út frá mikilli sorg og áfalli sem hjónin og börn þeirra urðu fyrir í byrjun árs þegar fóstursonur þeirra, Guðni Alexander Snorrason, lést aðeins tvítugur að aldri. Dagsetning maraþonsins er engin tilviljun en Guðni yrði 21 árs 9. september næstkomandi og því er þetta hans afmælishelgi.
„Guðni var yndislegur drengur en fékk léleg spil á hendi strax við fæðingu, eintóma hunda. Kerfið, sem á að vernda börn þessa lands, brást honum algjörlega trekk í trekk og svo fór sem fór. Guðni er ekkert einsdæmi en það er sorglega algengt að börn og ungmenni hér á landi týni lífi sínu út af vanrækslu foreldra og kerfisins. Við ætlum því að baka fyrir Guðna og öll hin börnin sem gleymast,“ segir Guðmundur og Lilja tekur í sama streng.
„Við völdum Bergið headspace því okkur finnst hugmyndafræðin æðisleg og starfsfólkið sem vinnur þar er með gríðarmikla ástríðu fyrir velferð barna og ungs fólks í þessu landi. Í Berginu eru allir á aldrinum 12 til 25 ára velkomnir og ekkert vandamál of stórt eða lítið, hvort sem það er fyrsta ástarsorgin eða erfiðar heimilisaðstæður. Vonandi náum við að slá met fyrra bakstursmaraþons og safna eins og vindurinn fyrir Bergið og halda þannig minningu Guðna á lofti. Það má segja að þetta sé okkar leið til að minnast hans og snúa fyrsta afmælisdeginum án hans upp í eitthvað gleðilegt og jákvætt.“
Bakstursmaraþonið verður með svipuðu sniði og síðast; hjónin opna dyrnar í Melgerði 21 á Kársnesinu í Kópavogi stundvíslega klukkan 12 á hádegi á laugardeginum og þá hefst baksturinn og kaffiuppáhellingin. Allir eru velkomnir þennan sólarhring sem maraþonið varir og geta gætt sér á kökum, kruðeríi og kaffi. Þeir sem eru aflögufærir geta styrkt Bergið með frjálsum framlögum með bankainnleggi, reiðufé eða kortafærslu en þeir sem sjá sér ekki fært að veita peningastyrki sýna málefninu stuðning með því að mæta á maraþonið og láta alla og ömmu þeirra vita af því. Breiða boðskapinn út sem víðast. Í síðasta maraþoni var gestagangur allan sólarhringinn, meira að segja um miðja nótt, og lögðu mörg hundruð manns leið sína í herlegheitin sem endaði með því að Lilja grét með þáverandi forseta, Guðna Th. Jóhannessyni í litla eldhúsinu í Melgerði.
„Við ætlum að gera enn betur núna og fá fleiri í heimsókn. Við ætlum að bæta í vöfflujárnin og kaffivélarnar til að tryggja að það verði alltaf eitthvað á borðum því síðast var það oft mikið kapphlaup að koma veitingum á borðið. Sumar vöfflurnar fóru nánast beint úr járni í munn,“ segir Lilja en stærstu styrktaraðilar maraþonsins eru Hagkaup og Ormsson.
Guðmundur bætir við að þau séu opin fyrir alls konar uppákomum á meðan á maraþoninu stendur.
„Ef til dæmis skemmtikraftar vilja koma og sýna okkur stuðning með söng, dans eða annars konar list er það hjartanlega velkomið.“
Hér má sjá viðburðinn á Facebook.
Bergið er stuðnings- og ráðgjafasetur fyrir ungt fólk upp að 25 ára aldri. Markmið Bergsins er að bjóða upp á lágþröskuldaþjónustu með áherslu á stuðning, fræðslu og ráðgjöf. Í Berginu er lagt upp með að skapa notalegt og öruggt umhverfi fyrir ungt fólk sem vill fá aðstoð fagfólks og notenda með fjölbreytta reynslu.
Hér má finna allar upplýsingar um Bergið headspace.
Hægt er að styrkja Bergið með því að gerast félagi, félagsgjaldið er 2.900 kr. á ári, styrkja Bergið með mánaðarlegum styrkjum með upphæð að eigin vali eða einu framlagi.
Hægt er að styrkja Bergið með því að leggja inn á reikning 0301-26-010481, kennitala 431018-0200.