Maðurinn sem rændi henni, Lucasz Herba, var dæmdur í sextán ára og níu mánaða fangelsi fyrir glæpinn.
Það var að koma út heimildamynd á BBC, Chloe Ayling: My Unbelievable Kidnapping, þar sem fyrirsætan fer yfir þessa hryllilegu martröð.
Ayling starfaði sem fyrirsæta og var bókuð í verkefni í Mílanó á Ítalíu sumarið 2017. Hún var þá tvítug.
Degi áður en hún fór til Ítalíu fékk hún skilaboð frá móður sinni: „Ég hef slæma tilfinningu gagnvart þessu verkefni í Mílanó. Ég bið þig, ekki fara.“ En Ayling fór samt.
Þegar hún mætti í myndatökuna var ráðist á hana. Hún segir að tveir grímuklæddir menn hafi komið aftan að henni og sprautað hana með deyfilyfi.
„Ég var meðvitundarlaus og vaknaði síðan með bundnar hendur og fætur og límband yfir munninum. Það var farið með mig á sveitabýli og mér var haldið þar fanginni í sjö daga þar til ég náði að sannfæra einn manninn um að sleppa mér, með því að lesa í hegðun hans og nota tilfinningar hans til mín,“ sagði hún í This Mornin í fyrra.
Mannræningjarnir ætluðu að selja hana í kynlífsánauð til hæstbjóðanda.
Ayling segir að meðferðin sem hún fékk í fjölmiðlum hafi haft meiri langtímaáhrif heldur en mannránið sjálft.
Í fyrra komu út leiknu þættirnir Kidnapped: The Chloe Ayling Story sem voru byggðir á hennar sögu. Hún sagði á sínum tíma vera ánægð að BBC hafi ákveðið að gera þættina og að hún hafi fengið að eiga þátt í að segja sína sögu, að almenningur, sem fékk að heyra að hún væri lygari og að hún hafi sett mannránið á svið, hafi loksins fengið að vita alla söguna.