Eftir rúmlega mánaðarlanga leit telur lögreglan í Suður-Ástralíu sig nú hafa fundið höfuð Julians Story, manns sem er talinn hafa verið myrtur á hrottalegan hátt af kærustu sinni, Tamiku Chesser, fyrrverandi keppanda í vinsælum raunveruleikaþætti ytra, Beauty and the Geek.
Parið var búsett í strandbænum Port Lincoln en lík Julian fannst fyrir tilviljun í íbúð þeirra að kvöldi 19. júní síðastliðinn. Lögregla hafði verið kölluð á vettvang vegna smávægilegs eldsvoða í húsinu og uppgötvaði líkið en þá hafði höfuð Julian verið fjarlægt.
Eðlilega beindist grunur lögreglumanna strax að kærustu hans, Tamiku Chesser, sem var handtekin á staðnum eftir nokkur átök við lögreglu en einn lögreglumaður slasaðist í aðgerðinni. Er talið að morðið hafi átt sér stað tveimur dögum fyrr, aðfararnótt 17. júní. Chesser hefur verið ákærð fyrir morð, líkamsvanhelgun og árás á lögreglumann.
Í kjölfar handtökunnar hófst umfangsmikil leit að höfði Julian. Leitin beindist að kjarrlendi og strandlínu nærri Port Lincoln og fór fram með aðstoð lögreglu, björgunarsveita og sérfræðinga í réttarlæknisfræði. Leitinni var hætt tímabundið þann 1. júlí en hún hófst aftur í síðustu viku eftir að lögregla fékk nýjar upplýsingar og skilgreindi ný leitarsvæði.
Í morgun tilkynnti lögregla svo um að líklega væri höfuð Julians Storys loks fundist. Hundaeigandi hafði verið á ferð með hund sinn í kjarrlendi rétt utan við göngustíg þegar hundurinn hljóp inn í runna og kom ekki þegar á hann var kallað. Þegar eigandinn fór á eftir honum uppgötvaði hann hauskúpu sem lá einfaldlega á jörðinni, hafði hvorki verið grafið né hulið að neinu leyti.
Fjölskylda Storys hefur verið látin vita af fundinum og næstu skrefum.
Hinn meinti morðingi, Tamika Chesser, sem komst í úrslit í annarri þáttaröð Beauty and the Geek árið 2010, hefur vakið talsverða fjölmiðlaathygli í Ástralíu í gegnum tíðina. Hún hefur unnið sem fyrirsæta fyrir vörumerki á borð við Target og birst í tímaritum eins og Ralph og FHM. Á samfélagsmiðlum sínum hefur hún birt bæði kynþokkafullar glamúrmyndir og sem óræðari myndir sem vísa í trúarbrögð á borð við gyðingdóm og hindúisma.
Chesser hefur verið vistuð á geðdeild síðan hún var handtekin. Ákærurnar gegn henni verða teknar fyrir í tveimur dómsmálum: árásin á lögreglumann verður til meðferðar í Port Lincoln þann 31. júlí, og morðmálið sjálft í desember.
Málið hefur vakið mikla athygli meðal íbúa í Port Lincoln, sem segja slíkt hrottafengið ofbeldismál vera einsdæmi í bænum. Þá eru margir fegnir að höfuð fórnarlambsins hafi loks fundist enda óþægileg tilhugsun að það gæti leynst hvar sem er, í og við bæinn.