Ljósmynd af bresku sjónvarpsstjörnunni Georginu Toffolo í stangveiði á Íslandi vakti upp grunsemdir um að hún væri ólétt. Eiginmaður hennar, milljarðamæringurinn James Watt, var fljótur að kveða það í kútinn.
Breska blaðið The Sun greinir frá þessu.
Toffolo, sem gerði garðinn frægan í þáttunum Made in Chelsea, birti mynd af sér á samfélagsmiðlum í vöðlum og ullarpeysu í stangveiði á Íslandi. En parið var hér í heimsókn á dögunum.
Myndin lítur þannig út að sumir aðdáendur töldu að hún væri ólétt, það er væri komin með svolitla óléttubumbu. Þessi orðrómur fékk einnig byr undir báða vængi þegar Toffolo sagði að stórar fréttir væru í vændum.
„Eru ólétt?“ spurði einn aðdáandi beint út í athugasemdum við samfélagsmiðlafærsluna.
Eiginmaðurinn Watt, sem rekur bjórverksmiðjur, var hins vegar fljótur að stíga inn í og kveða það í kútinn þó að svar hans hafi kannski ekki virst allt of sannfærandi. „Ég held ekki að hún sé það,“ sagði hann.
Hinar stóru fréttir reyndust vera þær að Toffolo hefði veitt maríulaxinn sinn.