Innbrot hafa verið að aukast í umræðunni á Íslandi á undanförnum árum. Því miður hafa fjölmargir Íslendingar lent í innbrotum eða tilraunum til innbrota.
Á þræði á samfélagsmiðlum Reddit deila Íslendingar sinni reynslu af innbrotum. Hvernig þeir urðu varir við þetta og hvernig þeir brugðust við.
„Hefur einhvern tíma verið brotist inn hjá þér og stolið einhverju? Hver er besta vörnin til að koma í veg fyrir innbrot? Mér dettur í hug góð lýsing að vetri til, en á sumrin?“ spyr sá sem opnaði umræðuna. Svörin hafa ekki látið á sér standa.
„Einu sinni brotist inn hjá mér. Ég var með óvenjulega vinnutíma þá. Fljótlega eftir að meðleigjandi minn fór út um morguninn var komið inn í íbúðina. Ég var sofandi en vaknaði og vissi að það ætti ekki neinn að vera heima svo ég fór fram á rassinum með hurley kylfu í hendinni,“ segir einn.
Málið leystist þó blessunarlega vel. „Ég spjallaði smá stund við manninn, bauð honum kex og kvaddi hann með handabandi,“ segir hann.
Bestu lausnina segir hann að vera með hund. Það þurfi ekki að vera stór hundur, nógu stór til þess að innbrotsþjófur myndi vilja að forðast að slást við.
Ein kona greinir frá því að það hafi verið brotist inn til hennar og farið í hennar persónulegustu muni og klæði.
„Stolið öllu úr skartgripaskríni sem var bara með einhverju skrani, ilmvatni, Georgbaukum barnanna og nærfötunum mínum. 70 þúsund í seðlum sem lágu á eldhúsborðinu skildir eftir, sjónvarp og tölvur ekki snert en húsinu rústað. Rúmið mitt var tekið í sundur!“ segir hún.
Málið hafi haft varanleg áhrif á hana þó langt sé um liðið.
„Það eru 19 ár síðan og ég er enn þá súper nojuð á að læsa öllu allavega fjórum sinnum! (En gluggi var brotinn til að komast inn svo það skipti engu máli að það var allt læst),“ segir hún.
Sumir hafa lent oftar en einu sinni í innbrotum. „Brotist inn tvisvar hjá mér, og reynt einu sinni enn, 100% mér að kenna því í öll skiptin gleymdi ég að læsa hurðini, i þriðja skiptið var ég hinsvegar heima á brókinni horfandi a siman i myrkrinu,“ segir einn netverji. Grunar hann að sami maður hafi brotist inn. „Bjó í kjallara við Árbænum með sér inngang, líklegast verið sami maður öll þrjú skiptin, hann hefur vitað að ég skildi eftir ólæst og var að reyna a heppnina, hann hljóp met spretthlaup þegar hann sá mig í íbúðinni og miðað við ég læsti hurðinni alltaf eftir það, sama hvort ég var heima eða ekki og það var aldrei stolið frá mér aftur.“
Staðsetning muna sé mikilvæg, sem og að læsa.
„Helstu ráð sem ég get gefið þér er að læsa hurðinni, ekki gera það sama og ég og missa mörg hundruð þúsund virði af verkfærum við svona, líka að fela dýru verkfærin og ekki skilja þau eftir í innganginum,“ segir hann.
Sumir hafa gripið þjóf glóðvolgan við að reyna að komast inn. „Það hefur verið reynt. Bjó í kjallara og heyrði skrítið hljóð í glugganum þegar ég var að horfa á sjónvarpið: dró gluggatjöldin frá til að sjá, aldrei séð manneskju spretta jafn hratt burt. Tókst samt að skrúfa hluta af gluggafestingunni af á þessum örfáu sekúndum,“ segir einn.
Besta reglan til að forðast innbrot sé að láta líta út fyrir að einhver sé heima. Svo sem með því að hafa ljós kveikt eða útvarp í gangi.
„Það var gerð ein heiðarleg tilraun, en viðkomandi var greinilega drukkinn eða bara tækifærissinni og gafst upp þegar hann gat ekki opnað gluggann lengra en ryðgað stormjárnið leyfði,“ segir annar.
Segir hann það sem virki sé að læsa dyrum og gluggum, draga gardínur fyrir og vera ekki með nein verðmæti sýnileg í glugganum. Einnig að tilkynna ekki hvenær húsið sé tómt.
Inn í umræðuna stígur einnig fyrrverandi starfsmaður öryggisfyrirtækis og lýsir sinni reynslu. Það er hvað virki best.
„Ég vann hjá öryggisfyrirtæki í nokkur ár, ég myndi segja að besta sem þú getur gert er að sjá til þess að það sé erfiðara að brjótast inn hjá þér en nágrönnum, eða að það sé ekki hægt að stela einhverju dýru í fljótu bragði,“ segir hann. „Eitt innbrot sem situr eftir í minningunni var í einbýlishús, það var brotið glugga á pall hurðinni, opnað hana og stolið Bluetooth hátalara sem var í stofuglugganum. Löggan sagði að þjófurinn hafi ekki farið lengra en 2 skref inn og svo farið, líklega farinn áður en sírenan hjá öryggiskerfinu fór af stað.“