Tilraunir Donalds Trump, Bandaríkjaforseta, til að slíta tengsl við Elon Musk og fyrirtækið SpaceX hafa brotlent eftir að ríkisstofnanir kváðu upp þá skoðun sína að við fyrirtækið værir ómissandi fyrir yfirburði Bandaríkjanna í geimnum.
Trump, sem nýverið lenti í opinskáum deilum við Musk vegna gagnrýni auðkýfingsins á umdeilt fjárlagafrumvarp Trump og tengsla forsetans við barnaníðinginn Jeffrey Epstein, lýsti því yfir að hægt væri að spara gríðarlega fjárhæðir með því að „rifta öllum ríkissamningum“ við Musk og senda hann „aftur heim til Suður-Afríku.“
Samkvæmt nýrri umfjöllun Wall Street Journal stöðvaði innri úttekt innan varnarmálaráðuneytisins þær fyrirætlanir. Að beiðni Trump voru teknir saman allir samningar hins opinbera við fyrirtæki í eigu Musk. Úttektin leiddi í ljós að samningar ríkisins við SpaceX væru einfaldlega ómissandi fyrir varnarmálaráðuneytið og NASA.
Þar kom meðal annars fram að fá eða engin fyrirtæki gætu leyst verkefnin af hendi með sama árangri. SpaceX hefur byggt upp einokunarstöðu á sviði eldflauga og ákveðinna tegunda ervihnattakerfa, þar sem keppinautar á borð við Boeing eiga enn langt í land.
Á hápunkti rifrildis Trump og Musk á dögunum hótaði hinn síðarnefndi að taka verkefnið Crew Dragon úr umferð en um er að ræða eina bandaríska geimfarið sem hefur vottun til að ferja geimfara til og frá Alþjóðlegu geimsstöðinni (ISS). Hótunin olli ugg innan NASA, sérstaklega eftir að Crew Dragon bjargaði tveimur geimförum, Butch Wilmore og Suni Williams, sem sátu föst á ISS í um níu mánuði vegna bilunar, fyrr á árinu.
Þrátt fyrir hatramar deilur Trump og Musk hefur SpaceX haldið áfram að vinna fyrir bandaríska ríki á grundvelli ýmissa samninga. Til að mynda mun ríkið greiða fyrirtæki Musk 5,9 milljarða dala vegna 28 öryggisflugferða á árinu. Í maí var nýr GPS-gervihnöttur settur á loft fyrir Space Force og innan skamms er von á næstu bandarísku áhöfninni til ISS með fari SpaceX.
Samskiptin á milli Trump og Musk hafa þó ekki batnað. Musk hefur farið mikinn í gagnrýni sinni á meðhöndlun forsetans á hinum svonefndu Epstein-skjölum og meðal annars fullyrt að þar hefði Trump ýmislegt misjafnt að fela. Þá hefur auðkýfingurinn hótað að stofna eigin stjórnmálaflokk til höfuðs Trump.