Í mörg horn var að líta á næturvakt lögreglunnar, 94 mál skráð og einn dvaldi í fangageymslum lögreglu.
Talsvert var af tilkynningum um partýhávaða í heimahúsum, þá var töluverð ölvun í miðborginni og þó nokkrar aðstoðarbeiðnir bárust vegna ölvaðra einstaklinga, lögreglan sinnti þjófnaðarmálum, umferðarslysum og fleiri verkefnum.
- Um miðja nótt var tilkynnt um partýhávaða í hverfi 113.Tilkynnandi tók það sérstaklega fram hversu falskur söngur veislugesta væri. Lögregla svaraði kallinu og bað gestkomandi að hemja söngraddirnar og helst að geyma sönginn þar til í sturtunni, á kristilegri tíma.
- Tilkynnt var um ósætti milli tveggja manna í hverfi 109. Það endaði þannig að annar maðurinn hafði í hótunum við hinn og framdi svo eignaspjöll á farartæki í eigu hans. Lögregla kom á vettvang og tók framburð af mönnunum.
- Vopnað rán var framið í miðbænum. Þar hafði maður ógnað starfsmanni söluturns með hníf. Maðurinn komst undan með eitthvað af fjármunum. Starfsmanninn sakaði ekki. Maðurinn var ekki fundinn í morgunsárið og er málið í rannsókn.
- Tveir menn sem voru að krota á veggi í hverfi 104 voru handteknir og teknar skýrslur af þeim. Þeir eiga síðan von á kæru vegna eignaspjalla fyrir veggjakrotið.
- Lögreglan var með virkt eftirlit með ástandi ökumanna víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu. 12 ökumenn handteknir fyrir akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.
- Tiilkynnt var um nágrannaerjur í hverfi 109. Lögregla kom á staðinn og þar höfðu handalögmál átt sér stað á milli nágranna. Framburður tekinn af aðilum á vettvangi.