fbpx
Laugardagur 12.júlí 2025
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Minnihlutinn á Alþingi hefur ekki neitunarvald

Eyjan
Laugardaginn 12. júlí 2025 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sú mikilvæga þingræðisregla hefur gilt á Íslandi að kjörnir fulltrúar þjóðarinnar leiða mál til lykta með lýðræðislegum atkvæðagreiðslum. Fjórir kostir eru í boði, að styðja fingri á grænan takka, gulan eða rauðan, ellegar mæta ekki til atkvæðagreiðslunnar. Með þessu móti tjá þingmenn afstöðu sína.

Þegar svo ber við að minnihluti Alþingis tekur sér það vald að standa gegn framgangi mála á löggjafarsamkomu þjóðarinnar – og líta á það sem „heilaga skyldu“ sína að stöðva öll mál rétt kjörinna stjórnvalda í landinu, sem hafa ríkan meirihluta á þingi, þá er komin til sögunnar skýr mynd af ofbeldi innan veggja þinghússins við Austurvöll sem enginn bragur er að.

Minnihlutinn á Alþingi hefur ekki neitunarvald. Þvert á móti skuldar æðsta stofnun lýðveldisins kjósendum í landinu að þingræðið virki á hverjum tíma. Allar tilraunir til að aftengja það má kalla ýmsum nöfnum, en þær fara að minnsta kosti þvert gegn lýðræðisvenjum – og þingsköpum.

Það sem hefur blasað við í þingsölum síðustu daga og vikur er að minnihluti Alþingis, sem samanstendur meðal annars af tveimur gömlum valdaflokkum sem aldrei hafa fengið lakari kosningu í sögu sinni, og urðu fyrir vikið vitni að fyrstu hreinu valdaskiptunum á Íslandi, neita að semja um þinglok nema að gengið sé að hreinum og klárum afarkostum þessara afturhaldsafla.

Og þar er komin fordæmalaus krafa sem engum viðsemjendum hefur áður dottið til hugar í sögu þings og þjóðar, jafnvel ekki sterkustu og stjórnlyndustu foringjum Sjálfstæðisflokksins á fyrri tíð, sem áttu það að vísu til í fýlukasti að senda þingið í sumarfrí án samninga, en krafan um að þeir réðu líka öllu saman í minnihluta var þeim ævinlega víðs fjarri.

„Nú gerðist það sögulega á samningafundum formanna stjórnmálaflokkanna á Alþingi að fulltrúar minnihlutans lögðu fram sitt eigið frumvarp um veiðigjöld og kröfðust þess að ríkisstjórn Íslands legði það fram í sínu nafni í stað þess plaggs sem hún hafði sjálf lagt fram.“

Nú gerðist það sögulega á samningafundum formanna stjórnmálaflokkanna á Alþingi að fulltrúar minnihlutans lögðu fram sitt eigið frumvarp um veiðigjöld og kröfðust þess að ríkisstjórn Íslands legði það fram í sínu nafni í stað þess plaggs sem hún hafði sjálf komið til þinglegrar meðferðar. Hún yrði að samþykkja frumvarp minnihlutans, í stað síns eigins, ef þinglokasamningar ættu að nást!

Til að bíta höfuðið af skömminni átti þetta frumvarp minnihlutans, sem meirihlutinn átti að kokgleypa, ekki að taka gildi fyrr en í lok kjörtímabilsins. Heyr á endemi.

Hér er um pólitískt Íslandsmet í hroka og yfirlæti að ræða. Við kunnum þetta. Þið kunnið þetta ekki. Við megum þetta áfram. Við eigum þetta áfram.

Með öðrum orðum viðurkennir minnihlutinn ekki umboð meirihlutans. Hann lýtur ekki svo á að valdaskipti hafi farið fram. Hann meðtekur ekki niðurstöðu síðustu Alþingiskosninga á Íslandi. Hann virðir ekki lengur lýðræðið í landinu.

Ef til vill má rekja ástæðuna til þess að bakland flæmdu aflanna hefur skroppið saman. Og það verulega. Þau tala inn í mikinn minnihluta landsmanna. Langstærstur hópur landsmanna er rasandi yfir því Íslandsmeti sem þau hafa sett í málþófi um sanngjarna og löngu tímabæra leiðréttingu veiðigjalda sem nýtur mikils stuðnings um allt land. Og þar er raunar innistæðuleysi málþófsins komið. Málþóf virkar því aðeins að víðtækur samfélagslegur stuðningur sé við það.

Því er alls ekki til að dreifa í dag. Þar er langur vegur frá.

Það er svo eftir öðru – og vitnar enn um það hvað þessi íhaldsöfl eiga erfitt með að lesa salinn – að dag hvern tönnlast þau á því að Kristrún Frostadóttir, hæstvirtur forsætisráðherra valdi ekki starfa sínum. Hún sé ekki traustsins verð. Hafi ekki þingreynsluna.

Má þá benda rökþrota minnihluta á að vinsældir Kristrúnar Frostadóttur við stjórn landsins eru sögulegar – og fara hratt vaxandi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Elías Már til Kína
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Málþóf og málþæfarar

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Málþóf og málþæfarar
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Thomas Möller skrifar: Einföldum lífið!

Thomas Möller skrifar: Einföldum lífið!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum
Enn eru fornmenn á ferð
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Það erfiðasta við ræðulist

Þorsteinn Pálsson skrifar: Það erfiðasta við ræðulist
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Alvöru leiðtogi

Björn Jón skrifar: Alvöru leiðtogi
EyjanFastir pennar
12.06.2025

Þorsteinn Pálsson skrifar: Þáttaskil í Evrópuumræðu

Þorsteinn Pálsson skrifar: Þáttaskil í Evrópuumræðu
EyjanFastir pennar
11.06.2025

Thomas Möller skrifar: Hvað mun sagan segja?

Thomas Möller skrifar: Hvað mun sagan segja?