Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, og eiginmaður hennar, Björn Skúlason, heimsóttu Sólheima í Grímsnesi um helgina í tilefni af því að 95 ár eru síðan starfsemin þar hófst.
Veðrið lék við gesti Sólheima og forsetinn tók virkan þátt í dagskrá dagsins og gaf sér góðan tíma með íbúum og gestum. Halla tók fyrstu skóflustungu að stækkun Bláskóga, heldrimannahúss Sólheima, og þáði að því loknu afmæliskaffi í Vigdísarhúsi. Við það tækifæri var henni færð að gjöf handmáluð rjúpa með sólgulum hálsklúti, samstarfsverkefni Erlu Bjarkar og Kristjáns Atla.
Forseti tók á móti víðförlasta húsi veraldar, gjöf Íslandsstofu til Sólheima, naut leiksýningar leikfélagsins á Sólheimum um sögu Sesselju í leikgerð Eddu Björgvins þar sem forseti var jafnframt krýndur kærleiksorðu Sólheima og færð útsaumsmynd Guðrúnar Láru af þeim hjónum.
Sesselja Hreindís Sigmundsdóttir stofnaði Sólheima þann 5. júlí árið 1930 en Sólheimar voru fyrsta samfélagið í heiminum sem byggði á hugmyndum um sjálfbærni, lífræna ræktun og félagslega þátttöku fatlaðra. Sesselja er af mörgum talinn fyrsti íslenski umhverfissinninn en hún var brautryðjandi í lífrænni ræktun á Norðurlöndum. Sesselja var afrekskona sem setti sér það markmið sem ung kona að vera þeim skjól sem minnst mega sín og varði hún lífi sínu og kröftum í þeirra þágu. Í starfi sínu fór hún ekki troðnar slóðir heldur ruddi hún nýja braut.