Pólsk kona sem flutti til Íslands segir tvo hluti koma henni á óvart varðandi íslenskar konur. Annars vegar hversu sterkar og sjálfstæðar þær eru og hins vegar hversu hjónabandið skipti litlu máli. Hún þekki konu sem eigi fimm börn með fimm mönnum og enginn kippi sér upp við það.
Pólsk kona búsett á Íslandi, Aleksandra að nafni, var í viðtali í pólska miðlinum Kobieta Gazeta um reynslu sína að flytja til og búa á Íslandi. En Pólverjar eru langfjölmennasti innflytjendahópurinn á Íslandi, fleiri en 22 þúsund manns. Sjálf vinnur hún í ferðamannaiðnaðinum, en maðurinn hennar, sem er hollenskur, starfar sem læknir.
Í viðtalinu lýsir hún Íslendingum sem „Ítölum norðursins“. Allt gerist mjög hægt hér og að enginn sé að flýta sér að neinu. Íslendingar séu ekki mjög uppteknir af stjórnmálum og fjölmiðlarnir séu „leiðinlegir“ og lítið um tilfinningar.
Eitt það sem kom henni hvað mest á óvart var hversu sterkar og sjálfstæðar íslenskar konur eru.
„Þær eru ekki hræddar við að berjast fyrir sínu,“ segir Aleksandra og nefnir sem dæmi kvennaverkfallið árið 1975. „Mótmæli þeirra hrundu af stað miklum samfélagslegum breytingum og minnkuðu kynbundið óréttlæti. Þar að auki þá stjórnar konur Íslandi í dag. Þær sitja í veigamestu embættunum – sem forsætisráðherra, forseti, lögreglustjóri.“
Þetta sjálfstæði íslenskra kvenna komi einnig fram í fjölskyldugerðinni. Það er að íslenskar konur séu ekkert að flýta sér að festa sitt ráð.
„Margar af þeim vilja ekki giftast,“ segir Aleksandra. „Það eru mjög fá brúðkaup hérna, um helmingur para vilja ekki formfesta samband sitt. Það er líka engin pressa á fólk að fara í langtímasambönd. Ég þekki konu sem á fimm börn með mismunandi mönnum og það angrar ekki neinn. Og það sem meira er þá þekkja feðurnir allir hver annan og það eru engin illindi á milli þeirra. Það sem skiptir mestu máli fyrir þau er velferð barnanna.“
Hvað börnin varðar þá sé stuðningur hins opinbera við börn og barnafjölskyldur mjög mikill.
„Yfirvöld vilja eins marga nýja ríkisborgara og hægt er. Þess vegna er mikill fjárhagslegur stuðningur við umönnun barna,“ segir Aleksandra. „Sumir foreldrar vinna ekki heldur sinna börnum sínum. Greiðslurnar frá hinu opinbera eru svo miklar í sumum tilvikum að það er hægt að vinna heima með nokkur börn. Skólarnir sína líka mikinn stuðning. Kennarar eru vel launaðir og sjá um börn þangað til seint á daginn.“