The Independent skýrir frá þessu og segir að Headley hafi brotist inn hjá hinni 75 ára Louisa Dunne í Bristol í júní 1967. Hann réðst á hana, nauðgaði og myrti síðan.
Kvenmannsöskur heyrðust berast úr húsi Dunne nokkrum klukkustundum áður en nágrannar hennar fundu lík hennar. Dunne hafði misst tvo eiginmenn og bjó ein þegar hún var myrt.
Engin ummerki um átök voru í húsinu. Líkið lá ofan á hrúgu af gömlum fatnaði.
Málið var óleyst áratugum saman eða allt þar til lögreglan sendi muni, sem voru haldlagðir á heimili Dunne, í DNA-rannsókn. Niðurstöðurnar svöruðu til DNA úr Headley sem hafði afplánað fangelsisdóm fyrir að nauðga tveimur eldri konum 1977.
Headly neitaði sök en kviðdómur sakfelldi hann fyrir morð. Hann bar ekki vitni fyrir dómi.
Talsmaður lögreglunnar sagði að verið sé að rannsaka hvort Headly tengist fleiri óleystum sakamálum.