Starfsmaður leikskóla hjá Vestmannaeyjabæ hefur verið sendur í leyfi fyrir að hafa slegið til barns. Frá þessu greinir RÚV en fréttastofan fékk staðfestingu frá framkvæmdastjóra Fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar.
Í fréttinni kemur fram að atvikið hafi átt sér stað í síðustu viku og það sé til meðferðar hjá deildarstjóra fræðslu- og uppeldismála Vestmannabæjar og mannauðsstjóra bæjarsins.
Lögreglu hafi hins vegar ekki verið gert viðvart né hafi foreldrum barnsins verið tilkynnt um málið frá leikskólastjórnendum.
Verði atvikið staðfest má búast við því að starfsmaðurinn fái áminningu í starfi eða verði sagt upp störfum.