Óánægja ráðandi afla innan Sósíalistaflokksins með niðurstöðu kosninga á aðalfundi flokksins hefur vart farið framhjá neinum. Einn helsti leiðtogi flokksins og formaður framkvæmdastjórnar, Gunnar Smári Egilsson, var ekki endurkjörinn og það sama gilti um fjölmarga fylgismenn hans sem hafa lagt blóð, svita og tár í uppbyggingu flokksins. Uppreisnarmenn innan flokksins voru einfaldlega betur skipulagðir og unnu allt að því fullnaðarsigur.
Margir sósíalistar hafa átt erfitt með að sætta sig við þessa niðurstöðu og hafa fjölmargir greint frá því opinberlega að þeir hafi sagt sig úr flokknum í kjölfarið. Gunnar Smári hefur sjálfur ýjað að því að framtíð hans liggi í burt frá flokknum og þá hefur borgarfulltrúinn Sanna Magdalena Mörtudóttir, sem var útnefnd pólitískur leiðtogi flokksins á fundinum, tilkynnt að hún segði sig frá öllum trúnaðarstörfum innan flokksins.
Enginn var þó tapsárari en ónefndur stjórnarmaður innan Sósíalistaflokksins sem brá á það ráð að taka tilbaka forlátan ísskáp sem viðkomandi hafði gefið flokknum og það þegar aðalfundinum var vart lokið. Nýir valdhafar innan flokksins þurftu því að finna aðrar leiðir til að kæla vodkað fyrir fagnaðarlæti kvöldsins.