Samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjaness fær kaupandi 20 ára gamals Toyota Land Cruiser jeppa, sem samkvæmt skoðunarmönnum er í óökuhæfu ástandi, að skila honum og fá kaupverðið endurgreitt.
Jeppinn er ágerð 2004 en maður nokkur keypti hann af fyrirtæki árið 2023 og borgaði fyrir 1,6 milljónir króna. Maðurinn sá auglýsingu frá fyrirtækinu þar sem jeppinn var auglýstur til sölu og fullyrt var að hann væri í mjög góðu ástandi. Meðal annars var sagt að sett hefðu verið á hann ný dekk, nýjar felgur og hann ryðvarinn upp á nýtt. Fullyrt var einnig að jeppinn væri nýskoðaður og að grindin hefði verið löguð. Hann var sagður ekinn 355.000 kílómetra og söluverðið var rétt undir 2 milljónum króna.
Maðurinn bauð fyrirtækinu 1,4 milljónir en fékk það svar að það væri of lágt tilboð fyrir svona eintak og að ekki yrði samþykkt lægra verð en 1,6 milljónir. Náðist loks samkomulag um þetta verð. Þegar viðskiptin áttu sér stað hafði fyrirtækið að sögn átt jeppann í tvo mánuði og sagði að allar upplýsingar sem það hefði gefið upp í auglýsingunni væru fengnar frá fyrri eiganda.
Maðurinn sagðist hafa farið með jeppann í skoðun í júlí 2024 en þá hafi komið í ljós að lýsingarnar á honum hefðu ekki átt við nein rök að styðjast. Jeppinn komst ekki í gegnum skoðunina vegna ýmissa galla. Maðurinn fékk frest til ágústloka til að koma jeppanum í ökuhæft ástand en ekkert varð af því þar sem fyrirsjáanlegur viðgerðarkostnaður var meiri en andvirði jeppans.
Maðurinn sendi forsvarsmanni fyrirtækisins skilaboð og fór fram á riftun kaupanna. Illa gekk að fá svör við þeim en forsvarsmaðurinn vildi meina að þau hefðu verið send í gegnum óvirkan aðgang á bland.is. Í skilaboðunum kom fram að grindin og spíssar í jeppanum væru ónýt, en búið hafi verið að fela það með ryðvörn.
Í kjölfarið leitaði maðurinn til lögmanns sem tilkynnti með formlegu bréfi um riftun kaupanna. Í bréfinu kom fram að undirvagninn væri kolryðgaður og að ryðvarnarefni hefði verið sprautað á ryðgað járnið. Þá væri botninn víða götóttur, boddífestingar ónýtar, grind þyrfti að lagfæra við spyrnufestingar, dráttarkrókur væri haugryðgaður, ljósabúnaði ábótavant og lengi mætti halda áfram að telja gallana á bifreiðinni. Jeppinn væri ekki í „toppstandi“ eins og hann hefði verið seldur, skoðun fengist ekki á hann og það svaraði ekki kostnaði að gera við hann.
Málið endaði með stefnu af hálfu mannsins sem byggði málareksturinn meðal annars á því að hættulegt væri að aka jeppanum og að engum tilgangi þjónaði að gera við hann. Vísaði hann enn fremur til þess að jeppinn væri í það slæmu ástandi að hann fengi ekki skoðun og teldist því óökuhæfur.
Vildi fyrirtækið meina að jeppinn hefði ekki verið gallaður þegar viðskiptin áttu sér stað. Krafa mannsins væri enn fremur of seint fram komin. Fullyrti fyritækið að auglýsing þess hefði verið rétt. Benti það enn fremur á að þegar maðurinn hefði farið með jeppann í skoðun í júlí 2024 hefði hann verið búinn að eiga hann og aka honum í níu mánuði án nokkurra athugasemda. Enn fremur hafi maðurinn sjálfur látið skoða jeppann fyrir kaupin og beri því alla sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi verið gallaður en það hafi ekki tekist að sanna.
Undir rekstri málsins fyrir dómi var bifvélavirkjameistari fenginn til að meta ástand jeppans. Sagði hann mikið ryð víða á undirvagni og annars staðar á jeppanum og áætlaði að það myndi kosta um 3 milljónir króna að gera við jeppann en maðurinn hafði keypt hann á 1,6 milljónir. Matsmaðurinn sagði þó mögulegt að koma jeppanum í gegnum skoðun með umfangsminni viðgerð sem myndi þá kosta um 1 milljón króna.
Matsmaðurinn sagði grind jeppans í raun ónýta og að með því að setja ryðvörn yfir allt ryðið hafi ætlunin augljóslega verið að fela hið rétta ástand jeppans. Burðarvirkið, boddíið, væri einnig illa farið sem skapaði hættu ef ekið væri á jeppann. Hægt væri að gera við jeppann og halda áfram að keyra hann en það væri ekki skynsamlegt.
Dómurinn segir það ljóst að maðurinn hafi mátt treysta auglýsingu fyrirtækisins um að ástand jeppans væri gott.
Skýrsla matsmannsins sýndi fram á að jeppinn hefði verið haldin göllum sem ekki hefði verið sýnilegir venjulegum kaupanda. Engu breyti þó að lýsingar fyrirtækisins á ástandi jeppans hafi verið byggðar á lýsingum fyrri eiganda. Dómurinn segir að með málshöfðuninni hafi kaupunum verið rift af hálfu mannsins og því séu kröfur hans ekki of seint fram komnar.
Dómurinn segir manninum heimilt að rifta kaupunum á grundvelli laga um lausafjárkaup. Hann megi skila jeppanum og eigi að fá kaupverðið, 1,6 milljónir króna, endurgreitt. Engu breyti þó að hann hafi keyrt jeppann 8.000 kílómetra eftir kaupin. Raunar hafi fyrirtækið ekki haft uppi sérstaka kröfu um að taka ætti tillit til þess. Auk þess að endurgreiða kaupverðið þarf fyrirtækið að greiða manninum dráttarvexti.