DV fjallaði ítarlega um málið á miðvikudag og í gær var svo greint frá því að meintur árásarmaður, karlmaður um fertugt, hefði verið úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald. Þolandinn er karlmaður á fimmtugsaldri en hann mun ekki vera lífshættulega slasaður þó hann hafi slasast alvarlega, eins og fram kom í frétt Vísis.
Mbl.is ræddi í gær við íbúa á Skyggnisbraut sem segir að sömu menn og komu við sögu í hnífstungunni haldi hverfinu í heljargreipum. Um sé að ræða hóp manna af arabískum uppruna og mun lögregla áður hafa haft afskipti af þeim.
„Lögregla hefur margoft komið hingað og haft afskipti,“ segir hann í samtali við mbl.is og bætir við að fyrir jól hafi maður með sveðju reynt að brjótast inn í sömu blokk.
„Þá hefur kona í þessari blokk þurft að láta manninn sinn fylgja sér niður í bílakjallara, þar sem hún þorir ekki að fara ein af ótta við þessa menn,“ segir hann og bætir við: „Þessir menn eru bara að áreita konur hér.“
Myndbönd eru nú í dreifingu frá vettvangi árásarinnar en þar má sjá árásarmanninn munda stórt eggvopn. Íbúar í hverfinu eru margir slegnir eftir atvik málsins enda átti árásin sér stað um hábjartan dag úti á götu í barnmörgu hverfi.
Nánar er rætt við íbúann á vef mbl.is.