En það er ákveðin ástæða fyrir þessum orðum Pútíns að mati Vibe Termansen, sem er sagnfræðingur með sérstaka áherslu á sögu Austur-Evrópu. Í samtali við TV2 sagði hún að Rússar líti á sig sem þjóð sem hafi verið stórveldi öldum saman. Núverandi landamæri landsins séu aðeins til bráðabirgða. Ástæðan sé að sjónarhorn þeirra miðast við þann tíma sem Rússland var stærra og náði að minnsta kosti yfir Úkraínu.
Hún sagðist telja að ummæli Pútíns um nasista í Úkraínu megi rekja til sögulegra sjónarmiða Rússa. Í síðari heimsstyrjöldinni hafi Jósef Stalín, þáverandi leiðtogi Sovétríkjanna, talið að andspyrnuhreyfingin, í þeim löndum sem Sovétmenn réðust inn í, væri hreyfing nasista. Hann gat ekki skilið að andspyrnuhreyfing gæti verið hluti af þjóðernishreyfingu. Í hans huga þýddi það að vera nasisti bara að maður var á móti Sovétríkjunum. Þetta sé viðhorf Pútíns í dag.
Hún sagði að sjálfsmynd Rússa sé að landið þeirra sé besta landið í heiminum af því að það sé það stærsta. Þessi sjálfsmynd hafi gert að verkum að rússneskum hermönnum hafi brugðið mjög þegar þeir réðust inn í Úkraínu. Þeir hafi verið hissa á að þeim hafi ekki verið tekið opnum örmum. Þeir hafi talið sig vera að frelsa úkraínsku þjóðina undan stjórn „nasistans“ Zelenskyy og að Úkraínumenn myndu um leið sjá að það væri betra að vera hluti af Rússlandi sem Rússar telji stærra og betra.