Forsetinn kallaði Springsteen meðal annars „uppáþrengjandi, viðbjóðslegan bjána“ og „andlega óhæfan bjána“.
Ástæðan fyrir þessari reiði forsetans er að Springsteen gagnrýndi Trump og stjórn hans ítrekað á tónleikum sem hann hélt nýlega í Manchester á Englandi. „Í heimalandi mínu, Bandaríkjunum sem ég elska, Bandaríkjunum sem ég hef skrifað um og hafa verið útvörður vonar og frelsis í 250 ár, í augnablikinu eru þau í höndunum á spilltri, vanhæfri og sviksamri stjórn“, sagði Springsteen meðal annars á tónleikunum að sögn The Mirror.
„Í kvöld biðjum við alla sem trúa á lýðræði og það besta í bandarísku tilrauninni, um að standa með okkur, hækka röddina gegn einræðisöflum og láta frelsið hringja!“ sagði hann einnig.
Þetta féll nú heldur betur ekki í kramið hjá Trump sem beið ekki boðanna með að setjast við lyklaborðið og ausa úr skálum reiði sinnar.
„Ég sé að hinn mjög svo ofmetni Bruce Springsteen hefur farið til útlanda til að tala illa um forseta Bandaríkjanna. Mér hefur aldrei líkað við hann, aldrei líkað við tónlist hans eða vinstrisinnaðar stjórnmálaskoðanir hans, og það mikilvægasta af öllu er að hann er alls enginn hæfileikamaður,“ skrifaði hann meðal annars.
Í annarri færslu sagði hann Springsteen vera „heimskan eins og stein“ og „uppþornaða rokkara sveskju“.