Róbert Orri Þorkelsson hefur verið í aukahlutverki í upphafi móts með Víkingi í Bestu deildinni. Þetta var tekið fyrir í Þungavigtinni í gær.
Varnarmaðurinn gekk í raðir Víkings í sumar og sneri þar með heim eftir nokkur ár í atvinnumennsku í MLS-deildinni vestan hafs og Noregi.
Róbert meiddist að vísu í fyrsta leik á undirbúningstímabilinu en hefur hann verið á bekknum í öllum sjö leikjum Víkings í Bestu deildinni til þessa og komið tvisvar við sögu í örfáar mínútur.
„Hann fær ekki mínútur. Hann er einn af fimm launahæstu leikmönnum Víkings, ég er nokkuð pottþéttur á því, en Sveinn Gísli er bara búinn að taka stöðuna,“ sagði Kristján Óli Sigurðsson í Þungavigtinni.
„Það verður spurning hvað gerist með hann í glugganum. Hann og hans fjölskylda sætta sig ekki við þetta.“
Róbert er samningsbundinn Víkingi út leiktíðina 2027. Hann er uppalinn í Aftureldingu en lék með Breiðabliki áður en hann fór út í atvinnumennsku á sínum tíma.