Pósturinn hefur náð góðum árangri við að þróa umgjörð sjálfbærniverkefna í takt við Sustainability Measurement and Management System (SMMS), samstarfsverkefni póstfyrirtækja um allan heim á vegum International Post Corporation (IPC).
Skor Póstsins á sjö áherslusviðum samstarfsverkefnisins hækkaði að meðaltali um rúm 11% milli áranna 2023 og 2024 sem Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Póstsins, segir sýna metnað fyrirtækisins hvað varðar sjálfbærni og umhverfisvernd; allt frá stefnumótun og markmiðasetningu til innleiðingar, gagnasöfnunar og upplýsingagjafar. Kemur þetta fram í fréttatilkynningu.
Samstarfsverkefnið SMMS var sett á laggirnar 2019 en Pósturinn slóst í hópinn árið 2023. Grunnurinn var þó lagður þegar árið 2009 þegar póstfyrirtækin hófu samstarf um umhverfismál undir merkjum IPC. Verkefnið nú er tvíþætt að sögn Þórhildar. „Annars vegar snýst það um að koma á stjórnkerfi fyrir áhersluþættina sjö, sem byggjast á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Hins vegar hafa fyrirtækin sett sér sameiginleg markmið um að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni.“
Pósthjólin vega þungt
Þórhildur segir að saman stefni póstfyrirtækin að því að helminga samanlagða árlega kolefnislosun sína á tímabilinu 2019-2030. „Markmiðið er einnig að 50% af samanlögðum bílaflota gangi fyrir vistvænu eldsneyti en 75% bygginga nýti endurnýjanlega orkugjafa. Þorri losunarinnar stafar frá flutningum og byggingum.“
Aðspurð um mikilvægi þess að taka þátt í verkefni á borð við SMMS svarar Þórhildur að Pósturinn hafi lært mikið af því. „Það er líka hvatning að sjá hvar við stöndum í samanburði við hin fyrirtækin og við erum að reyna að þoka okkur upp listann. Við erum auðvitað vel sett hvað varðar endurnýjanlega orkugjafa í byggingum hér á landi og meira en helmingur farartækja Póstsins gengur nú þegar fyrir vistvænu eldsneyti. Þar vega pósthjólin þungt.“
Ávinningurinn snýst ekki síst um að setja aga umgjörð um sjálfbærnimál sem Pósturinn sé smám saman að þróa og bæta að sögn Þórhildar. „Það sýnir árangurinn núna. Póstfyrirtækin deila líka sín á milli fjölbreyttri þekkingu á fundum og ráðstefnum og hafa nýlega stofnað til nýs verkefnis um sameiginlega útreikninga á kolefnisspori sendinga. Árlega heldur „póstfjölskyldan“ svo upp á Græna póstdaginn í Evrópsku samgönguvikunni í september. Saman náum við lengra! er slagorðið okkar.“