fbpx
Þriðjudagur 20.maí 2025
Fréttir

„Þarf íþróttahreyfingin virkilega að fórna ímynd sinni og forvarnarhlutverki fyrir skammtímafjárhagslegan ávinning?“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 20. maí 2025 09:23

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þráinn Farestveit, framkvæmdastjóri áfangaheimilisins Verndar, segir að það sé athyglisvert að vínandinn virðist verða sífellt sterkari þáttur í andrúmslofti íþróttaviðburða, þrátt fyrir að í áraraðir hefur verið lögð áhersla á að íþróttir og áfengi fari ekki saman.

„Íþróttahreyfingin hefur notið víðtæks stuðnings og trausts sveitarfélaga, almennings og styrktaraðila á þeirri forsendu að íþróttir stuðli að heilbrigðum lífsstíl, forvörnum og jákvæðum félagslegum áhrifum – sérstaklega fyrir börn og ungmenni. Þátttaka í íþróttastarfi hefur verið talin draga úr áhættuhegðun, þar á meðal áfengisneyslu. Því vekur það athygli að í dag virðist vínandinn sífellt sterkari þáttur í andrúmslofti íþróttaviðburða. Á síðustu árum hefur þróunin orðið sú að mörg íþróttafélög reiða sig nú á tekjur af áfengissölu. Stemningin á leikjum mótast sífellt meira af drykkju, óábyrgri hegðun og félagslegri neyslu,“ segir hann í pistli á Vísi.

Höfum við frekar trú á bjórnum en boltanum?

Þráinn spyr hvort íþróttahreyfingin þurfi „virkilega að fórna ímynd sinni og forvarnarhlutverki fyrir skammtímafjárhagslegan ávinning.“

„Forsvarsmenn sumra félaga hafa jafnvel lýst því yfir að áfengisneysla auki upplifun á leikdögum. Þar með er í raun sagt að keppnin ein og sér sé ekki nógu spennandi nema áfengi komi við sögu. Slíkt sjónarhorn er í hæsta máta áhyggjuefni – slík viðhorf eru skoðanamyndandi og til þess fallin að senda skilaboð um að við höfum frekar trú á bjórnum en boltanum?“ segir hann og bætir við:

„Þegar áfengi er samþætt við íþróttaviðburði smitast þessi viðhorf til næstu kynslóða barna sem áhorfendur – og framtíðarneytendur þessara veiga. Börn og unglingar sjá áhorfendur neyta áfengis í umhverfi sem á að einkennast af heilbrigði og virðingu. Þar með verða íþróttaviðburðir hluti af félagslegri samþykkt neysluhegðunar sem við annars reynum að forðast – meðal annars með íþróttum. Það er mótsagnakennt að á sama tíma og við bendum á forvarnagildi íþrótta, leyfum við að stúkan breytist í vínstúku. Þarf íþróttahreyfingin virkilega að fórna ímynd sinni og forvarnarhlutverki fyrir skammtímafjárhagslegan ávinning?“

„Sú neysla hefur reynst mörgum þeirra dýrkeypt“

Þráinn hvetur forystufólk íþróttahreyfingarinnar til að horfa frekar í baksýnisspegilinn en á sölugróðann. „Og hugsa til þeirra mörgu íþróttamanna og forustufólks hreyfinga sem hafa verið úthrópaðir fyrir framferði sem án nokkurs vafa má rekja til dómgreindarskorts undir áhrifum áfengis. Sú neysla hefur reynst mörgum þeirra dýrkeypt og vegur þyngra en að fá rautt spjald eða vera vísað úr keppni,“ segir hann.

„Gott orðspor og ásýnd íþróttahreyfingarinnar hefur tekið langan tíma að byggja, en slíkt traust getur horfið á einni nóttu verði ekki rétt staðið að málum. Fólkið í landinu treystir á forvarnagildi íþróttastarfsins þannig að ábyrgðin er mikil.“

Rauð flögg

Þráinn segir að jafnframt mætti gera kröfu til hins opinbera um að endurmeta þá fjármuni sem renna til íþróttafélaga ef þau velja að víkja frá fyrra forvarnargildi. „Hvers virði eru ímynd og heilbrigði framtíðarkynslóða í augum þeirra sem fjármagna slíkt starf?“

Þráinn segir að margt bendi til þess að neysla ungmenna sé að aukast. „Og er dvínandi áhugi á forvörnum kennt um og eftirgjöf. Á undanförnum árum hefur komið upp fjöldi atvika sem gefa til kynna að staða ungmenna fari versnandi og atburðir þeim tengdum slegið þjóðina með miklum harmi. Víða eru rauð flögg uppi og mikilvægt að íþróttahreyfingin sýni svo ekki sé neinn vafi á að hún standi með forvörnum á öllum sviðum,“ segir hann og hvetur nýjan forseta ÍSÍ, Willum Þór Þórsson, til að gera eitthvað í málinu. En Willum hefur áður talað gegn auknu aðgengi að áfengi.

Hvað viljum við?

Að lokum segir Þráinn:

„Við þurfum að spyrja okkur: Hver er andinn sem við viljum að svífi yfir vötnum og völlum landsins? Er það samheldni, heilbrigði og fyrirmynd, eða er það léttvín og léttúð? Íþróttir eru mikilvægur þáttur í samfélagsgerð okkar – ekki aðeins til skemmtunar heldur sem verkfæri til að móta gildismat. Veljum þann anda sem byggir upp – ekki þann sem grefur undan.“

Lestu pistilinn hans í heild sinni hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Mál séra Friðriks ekki opnað að nýju: „Þar með var settur punktur við þetta erfiða mál“

Mál séra Friðriks ekki opnað að nýju: „Þar með var settur punktur við þetta erfiða mál“
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Pósturinn með góðan árangur í alþjóðlegu sjálfbærnisamstarfi

Pósturinn með góðan árangur í alþjóðlegu sjálfbærnisamstarfi
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Þurftu að aflífa tvo hross í Hornafirði – „Við verðum að beita aflífun ef dýr er komið á þann stað að ekki er talið að hægt sé að bjarga þeim“

Þurftu að aflífa tvo hross í Hornafirði – „Við verðum að beita aflífun ef dýr er komið á þann stað að ekki er talið að hægt sé að bjarga þeim“
Fréttir
Í gær

Óprúttnir aðilar hafa undanfarnar vikur haft um 100 milljónir af fólki og fyrirtækjum á Íslandi – lögreglan segir að svona beri svikararnir sig að

Óprúttnir aðilar hafa undanfarnar vikur haft um 100 milljónir af fólki og fyrirtækjum á Íslandi – lögreglan segir að svona beri svikararnir sig að
Fréttir
Í gær

Vill að HÍ veiti bandarískum fræðimönnum skjól

Vill að HÍ veiti bandarískum fræðimönnum skjól
Fréttir
Í gær

Nara Walker um fangelsisvistina á Íslandi eftir að hún beit tungu eiginmannsins í sundur – „Allt í einu var lögreglan komin og ég var í losti“

Nara Walker um fangelsisvistina á Íslandi eftir að hún beit tungu eiginmannsins í sundur – „Allt í einu var lögreglan komin og ég var í losti“