Fulltrúi Vinstri grænna í landbúnaðar- og innviðanefnd Skagafjarðar er ósátt við að refa- og minkaskytta í Hegranesi hafi verið valin með hlutkesti. Veiðimaðurinn þurfi að hafa sterk tengsl við svæðið.
Málið var rætt á fundi nefndarinnar í gær. Það er að þrjár skyttur hafi sótt um refaveiðina og einn um minkaveiðina í Hegranesi fyrir botni Skagafjarðar. Nafn Elvars Arnar Birgissonar var dregið upp úr potti til að sinna refaveiðinni en hann hafði einmitt sótt um minkaveiðina einnig.
Þetta var Hildur Magnúsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna og óháðra í nefndinni, ekki sátt við. Lét hún bóka að í sameiningarsamningi við fyrrum Rípurhrepp komi skýrt fram að við veiðistjórn og ráðningu veiðimanna í Hegranesi skuli leitast við að ráða einstaklinga með sterk tengsl við svæðið. En Rípurhreppur sameinaðist 10 öðrum sveitarfélögum árið 1998 til að mynda sveitarfélagið Skagafjörð.
„Ljóst er að ef byggja á ráðningarferlið á hlutkesti á milli umsækjenda sem ekki allir eru búsettir á eða við svæðið, skapast hætta á að veiðieftirliti verði ekki sinnt með fullnægjandi hætti, auk þess sem með slíku verklagi væri verið að ganga gegn ákvæðum og anda sameiningarsamningsins,“ lét hún bóka.
Svöruðu Einar Einarssonar Framsóknarmaður og Sveinn Finster Úlfarsson, fulltrúi Byggðalista, á þá leið að jafnræði yrði að ríkja á meðal íbúa í Skagafirði sem uppfylla kröfur sem gerðar eru til veiðimanna.
„Upprunni einstaklinga eða aðrar tengingar þeirra við umrædd svæði geta ekki haft áhrif þar á og því eðlilegt að dregið sé á milli manna, sækji fleiri en einn um hverju sinni,“ létu þeir bóka. Gamla samkomulagið skuldbindi sveitarfélagið ekki af öðru en að sinna sínum lögbundnu skyldum og jafnræði gildi í þjónustu og meðferð mála.