Vandræði KA þetta sumarið halda áfram en liðið er úr leik í bikarnum eftir 2-4 tap á heimavelli gegn Fram í kvöld. Fram er komið í átta liða úrslit.
Fram fékk vítaspyrnu snemma leiks sem Fred Saraiva klikkaði á. Það var svo á áttundu mínútu sem Hallgrímur Mar Steingrímsson kom KA yfir.
Við það virtist Fram setja í gír og fyrir lok fyrri hálfleiks skoraði liðið þrjú mörk, Róbert Hauksson gerði tvö og Kyle McLagan gerði eitt.
Staðan vænleg fyrir gestina í hálfleik. Varamaðurinn Birgir Baldvinsson minnkaði þó muninn fyrir KA og staðan 2-3, allt galopið.
Adam var ekki lengi í paradís því fimm mínútum eftir mark Birgis setti Hans Viktor Guðmundsson boltann í eigið net og staðan 2-4 fyrir gestina.
Það var lokastaðan en áður en yfir lauk fékk Guðmundur Magnússon rauða spjaldið fyrir tæklingu. Bikarmeistarar síðasta árs úr leik.