Glódís Perla Viggósdóttir snýr aftur í landsliðshóp Íslands fyrir komandi leiki gegn Noregi og Frakklandi í Þjóðadeildinni. Er hún klár í slaginn að sögn landsliðsþjálfarans.
Ísland saknaði Glódísar sárt í leikjunum gegn Noregi og Sviss í síðasta mánuði, en þessi lykilmaður Bayern Munchen hefur verið að glíma við meiðsli í vor.
„Staðan á henni er bara þokkalega góð. Hún er leikfær og vonandi verður hún klár í að spila báða leikina. Eins og staðan í dag er hún leikfær,“ sagði Þorsteinn á blaðamannafundi í Laugardalnum í dag, eftir að tilkynnt var um hópinn.
„Það er auðvitað styrkur fyrir okkur að hafa hana. Hún er gríðarlega mikilvæg og hjálpar okkur mikið,“ sagði hann enn fremur.
Ísland mætir Noregi þann 30. maí ytra og Frökkum hér heima á Laugardalsvelli þremur dögum síðar.