Verðlag á matvöru hækkar um meira en hálft prósent þriðja mánuðinn í röð samkvæmt mælingum Verðlagseftirlits ASÍ, en verðlag á dagvöru hækkaði um 0,61% milli mars og apríl. Að sögn Verðlagseftirlitsins má rekja áhrifin að mestu til tveggja þátta. Annars vegar hækkun á verðlagi innlendra vörumerkja sem frá áramótum hafa hækkað mun hærra en verðlag erlendra vörumerkja og hins vegar má rekja þetta til slaknandi verðaðhalds hjá Nettó og Kjörbúðinni sem frá miðju síðasta ári höfðu haldið aftur af verðhækkunum en hafa gefið eftir frá áramótum.
Verðlækkunin í fyrra hjá Nettó og Kjörbúðinni vegur á móti miklum hækkunum í byrjun árs og því er árshækkun hjá þessum tveimur keðjum í lægri kantinum. Sú verslun sem hækkar mest á milli ára, þar sem verðlag hækkaði um 11% milli janúar og apríl, er Iceland sem hefur tekið fram úr 10-11 sem dýrasta verslun landsins.
Hluta af hækkunum dagvöruvísitölunnar má rekja til verðbreytinga Kjörbúðarinnar. Verslunin merkti hluta af vörum sínum með grænum punkti síðasta sumar sem lækkaði þær í verði, að meðaltali um 9%, og áttu þessar vörur að vera á sambærilegu verði og í lágvöruverslunum. Undanfarna mánuði hefur verð á þessum vörum farið hækkandi að nýju en stærsta stökkið var í mars þegar verð hækkaði um 11%. Verð á öllum vörum hækkaði í Kjörbúðinni í apríl að meðaltali um 1,6%.
Verð á nautakjöti hefur hækkað hratt á árinu og margar vörur hækkað meira það sem af er ári en á átta mánuðunum þar á undan. Verð á Stjörnueggjum hækkaði um 9% í maí.
Verðlagseftirlitið segir að vísbendingar séu um að hækkunartakturinn í stærstu verslununum, Bónus og Krónunni, sé að róast.