Enskir miðlar segja að Manchester United hafi ekki neinn áhuga á að selja Bruno Fernandes í sumar. Áhugi frá Sádi Arabíu er til staðar.
Það kom fram í gærkvöldi að Al-Hilal hefði gríðarlegan áhuga á því að kaupa Bruno.
Al-Hilal er á leið á HM félagsliða og er sagt hafa áhuga á að fá Bruno með, er félagið tilbúið að gera þriggja ára samning við hann.
Ljóst er að launin hjá Bruno myndu hækka mikið við það að fara til Sádí Arabíu en United ætlar sér ekki að selja hann.
Bruno er mikilvægasti leikmaður United og gerði nýjan samning við félagið síðasta sumar.
Al-Hilal er án stjóra en Jorge Jesus var rekinn á dögunum og leitar félagið nú að arftaka hans.