Ekki er ljóst hvort Cole Palmer geti verið með Chelsea gegn Arsenal í stórleiknum í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld.
Palmer gat ekki tekið þátt í æfingu Chelsea í dag vegna veikinda. Það yrði ansi mikið högg fyrir liðið að vera án hans á Emirates á morgun.
„Eins og staðan er myndi ég ekki segja að hann geti spilað á morgun. Við tökum stöðuna í fyrramálið. Sem stendur hef ég ekki trú á að hann verði með. Þó hann verði orðinn hraustur er ekki víst að hann verði í standi til að spila. Vonandi verður hann með,“ sagði Mauricio Pochettino, stjóri Chelsea, á blaðamannafundi í dag.
Palmer hefur verið stórkostlegur fyrir Chelsea á leiktíðinni en hann kom frá Manchester City síðasta sumar. Hann er með 25 mörk í öllum keppnum.