
Ríkisendurskoðun hvetur stjórnvöld til að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir kennaraskort á Íslandi. Hann er yfirvofandi. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í úttekt stofnunarinnar.
Nemendum við kennaradeildir hefur fækkað mjög frá árinu 2009 en þá var kennaranám lengt úr þremur árum í fimm. Nú er svo komið að ekki útskrifast nægilega margir kennarar til að viðhalda nýliðun í stéttinni. Í úttektinni eru kennaradeildir Háskóla Íslands og Háskóla Akureyrar hvattar til að leita leiða til að laða nýnema að náminu – auk þess að auka skilvirkni í kennaranámi. Mikilvægt sé að draga úr brotthvarfi nemenda og auka námshraða þeirra.
„Talið er að um 60% menntaðra leikskólakennara og um helmingur menntaðra grunnskólakennara séu við kennslustörf í leik- og grunnskólum landsins. Það bendir til að kennaraskortur verði ekki eingöngu leystur með fjölgun kennaranema heldur sé einnig mikilvægt að laða menntaða kennara til starfa og hvetja þá til að halda áfram störfum innan stéttarinnar.“ Þetta segir á vef Ríkisendurskoðunar.