

Aðeins þeir sem hafa samning við Costco fá að versla í versluninni, sem verður opnuð seint í maí. Ársaðild kostar 4.800 krónur fyrir einstaklinga en 3.800 fyrir fyrirtæki. Aðild veitir aðgang að vöruhúsum fyrirtækisins um heim allan. Þeir sem vilja skrá sig og njóta sérstakra afsláttarkjara geta gert það strax í dag, eða alla daga fram að opnun verslunarinnar.
Stjórnendur Costco héldu kynningarfund á Hótel Nordica í hádeginu á fimmtudag og fóru þar yfir þróun fyrirtækisins, stefnu þess og hugmyndafræði.
Á meðal þess sem kom fram er að Costo hefur um 3.800 vörutegundir til sölu hverju sinni. Vöruflokkarnir eru ótal margir og vörurnar eru seldar í miklu magni en á kostnað úrvalsins innan hvers vöruflokks. Flestar vörur fyrirtækisins munu standa á vörubrettum í risastóru verslunarhúsi Costco í Kauptúni.
Costo mun að sögn bjóða upp á þekkt innlend og erlend vörumerki á umtalsvert lægra verði en sést hjá hinum hefðbundnu heildsölum eða smásölum. Í versluninni verður einnig hægt að sækja þjónustu svo sem gleraugnaþjónustu og hjólbarðaþjónustu, bakarí, lyfjaverslun og veitingastað. Þá hyggst Costco selja eldsneyti eins og áður hefur komið fram, en aðeins meðlimum. Engin verðdæmi komu fram á fundinum. Forsvarsmenn gefa aðeins til kynna að verð verði hagstæðara en Íslendingar hafa áður kynnst.
Á fundinum kom fram að fyrirtækið hafi þegar fjárfest fyrir 6,2 milljarða króna á Íslandi. Það sé þess vegna komið til að vera á Íslandi.