
Fyrstu dagar Donalds Trump í embætti forseta vestra hafa verið með slíkum ósköpum að kaldur hrollur hefur farið um sæmilega frjálslynt fólk um allan heim. Með tilskipunum hefur Trump heft ferðafrelsi fólks sökum þess hvaða trú það aðhyllist og hefur lagt mannfjandsamlega línu í málefnum flóttafólks. Það er því mikið gleðiefni að fylgjast með íslenskum ráðherrum og þingmönnum stíga fram og fordæma framferði Bandaríkjaforseta. Ekki síður er gleðilegt að sjá Guðna Th. Jóhannesson taka einarða afstöðu gegn mannhatri með því að bjóða flóttamönnum heim til Bessastaða. En betur má ef duga skal! Ríkisstjórnin þarf að bregðast við með heildstæðum hætti og segja skýrt að Ísland standi fyrir mannréttindi og láti svona hegðun ekki óátalda.