
Það er oft ankannalega stutt á milli fólks í íslensku samfélagi. Það sannaðist enn þegar nýráðinn aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, Ólafur Teitur Guðnason, birti á Facebook-síðu ljósmynd sem verður að teljast sú fyrsta sem hann birtir starfs síns vegna. Á myndinni má sjá ráðherrann og Rannveigu Rist, forstjóra Rio Tinto á Íslandi sem starfrækir álverið í Straumsvík. Það vill svo skemmtilega til að áður en Ólafur Teitur kom til starfa í ráðuneytinu vann hann einmitt sem upplýsingafulltrúi téðs fyrirtækis. Það er því ekki að undra að Rannveig eigi greiðan aðgang að ráðherra síns geira.