

Mikill sómi var að framgangi nálega allra þeirra sem komu að, fjölluðu eða tjáðu sig um hvarf Birnu Brjánsdóttur heitinnar. Víða hefur verið fjallað um framgang lögreglu sem fór með nærgætnum hætti en þó af festu með rannsókn þessa hörmulega máls. Þá sýndu ráðamenn þjóðarinnar fallegan samhug og styrk. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hvatti þannig leitarmenn áfram með góðum kveðjum þegar leitin að Birnu stóð sem hæst og stappaði stálinu í þjóðina, hvatti fólk til að sýna tillitssemi, samkennd og góðvild en varast það sem gæti sært þá er síst skyldi eða æli á fordómum. Guðni sendi síðan fjölskyldu Birnu samúðarkveðjur í gær. Slíkt hið sama gerði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra síðastliðinn sunnudag. Það er dýrmætt að eiga ráðamenn sem skynja hug þjóðarinnar með þessum hætti og geta styrkt þá sem um sárt eiga að binda. Fyrir það ber að þakka.