

Grímur Grímsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hefur síðustu daga komið fram af aðdáunarverðri yfirvegun og stillingu í samskiptum við fjölmiðla og almenning. Grímur hefur leitt rannsókn á hvarfi ungrar stúlku, Birnu Brjánsdóttur, sem hefur valdið næsta óþekktum samhug íslensku þjóðarinnar, enda fólk slegið óhug vegna málsins. Grímur hefur af næmni í samskiptum sínum náð að róa fólk eftir því sem hægt hefur verið og verður honum seint þakkað nógsamlega. Í þessu samhengi er rétt að benda öðrum þeim sem í embættum sitja á framgöngu Gríms. Í öllum samskiptum sínum hefur hann sýnt tillitssemi, auðmýkt og vilja til að upplýsa eftir því sem hægt hefur verið um framgang rannsóknarinnar. Þá hefur hann aldrei skorast undan því að eiga samskipti við fjölmiðlafólk. Mættu ýmsir fleiri, stjórnmálamenn og embættismenn, taka sér framgöngu Gríms til fyrirmyndar.