

Kristján Óli Sigurðsson gerði upp íþróttaárið með Helga Fannari Sigurðssyni í viðhafnarútgáfu af Íþróttavikunni á 433.is.
Það vakti athygli þegar Lárus Orri Sigurðsson, sem hefur gert frábæra hluti í umfjöllun um Bestu deildina, var ráðinn þjálfari Skagamanna um mitt mót í Bestu deild karla í sumar.
Lárus, sem hafði ekki þjálfað síðan 2018, tók nokkurn tíma í að setja handbragð sitt á liðið og var það lengi vel á botninum. ÍA bjargaði sér þó að lokum örugglega.
„Eftir á að hyggja rétt ákvörðun. Lárus Orri var mjög skemmtilegur í sjónvarpi og ég saknaði hans þar. Hann er einn af fáum þar sem ég nenni að hlusta á tala um fótbolta.
Hann sannaði það að hann er hokinn af reynslu og gerði bara frábæra hluti með Skagaliðið. Ég hlakka mikið til að fylgjast með þeim í sumar. Þar eru til peningar og þeir eru sofandi risi,“ sagði Kristján.
Umræðan í heild er í spilaranum.