

Afturelding hefur fengið Jón Vigni Pétursson til liðs við sig frá Selfyssingum. Jón Vignir hefur skrifað undir samning við Aftureldingu sem gildir næstu tvö árin eða út tímabilið 2027. Jón er 22 ára gamall en hann hefur á ferli sínum spilað á miðjunni og sem miðvörður.
Jón Vignir var fyrirliði Selfyssinga í Lengjudeildinni á síðasta tímabili en hann hefur verið í lykilhlutverki hjá liðinu undanfarin ár. Jón Vignir hefur þrátt fyrir ungan aldur nú þegar spilað sex tímabil í meistaraflokki en hann á samtals að baki yfir hundrað deildar og bikarleiki með Selfyssingum.
,,Tilfinningin er mjög góð að vera orðinn leikmaður Aftureldingar og ég er spenntur að byrja. Spennandi verkefni í gangi sem ég er klár í að taka þátt í og ná markmiðum félagsins sem kynnt voru fyrir mér,” sagði Jón Vignir eftir undirskrift hjá Aftureldingu.