Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari vildi ekki mikið tjá sig um ummæli sonar síns um sérfræðinga RÚV um EM kvenna í gær. Hann sagði hann hafa rétt á sinni skoðun.
Íslenska kvennalandsliðið féll úr leik í gær og fékk Þorsteinn gagnrýni á RÚV. Jón Dagur Þorsteinsson, leikmaður karlalandsliðsins og sonur Þorsteins, baunaði á sérfræðinga eftir leik.
„Var regla þegar rúv valdi settið að annað hvort gastu ekkert eða veist ekkert?“ skrifaði Jón Dagur á Instagram í gærkvöldi. Þau Albert Brynjar Ingason, Ásgerður Stefanía Baldursdóttir og Ólafur Kristjánsson voru í setti.
„Hann er fullorðinn og má hafa sína skoðun. Þetta er hans skoðun og ekkert að því. Hann er sonur minn, auðvitað ertu að verja fjölskylduna þína,“ sagði Þorsteinn við 433.is í dag.
„Það er erfiðara fyrir þau að hlusta á eitthvað um mig heldur en fyrir mig sjálfan. Ég reyndar fylgist ekkert með umfjölluninni. Það er engin lýgi. Ég veit ekkert hvað er í gangi, hvað er skrifað og hef ekki lesið eina einustu grein.“
Nánar í spilaranum.