Virgil van Dijk fyrirliði Liverpool segir að Trent Alexander-Arnold verði að takast á við þau viðbrögð sem koma frá stuðningsmönnum Liverpool.
Baulað var á Trent um helgina eftir að hann ákvað að labba frítt frá félaginu í sumar og ganga í raðir Real Madrid.
Ákvörðun Trent kom ekki á óvart en fór hins vegar ekki vel í flesta stuðningsmenn Liverpool.
„Stjórinn sagði það fyrir leikinn að við ráðum því ekki hvernig fólki líður en hann tók þessa ákvörðun fyrir sig og fjölskyldu sína,“ sagði Van Dijk.
„Það komu viðbrögð, hann þarf að takast á við þau. Við þurfum líka að takast á við þetta, hann átti eflaust von á þessu.“
„Hann á tvo leiki eftir og fer svo sína leið.“
„Við erum hér fyrir hann, hann tók ákvörðun sem honum líður vel með og við getum ekki stjórnað því hvernig fólk tekur því.“