Barcelona tók á móti Inter í mögnuðum leik í kvöld, en um fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildarinnar var að ræða.
Gestirnir byrjuðu leikinn af ótrúlegum krafti og strax á 1. mínútu kom Marcus Thuram þeim yfir. Denzel Dumfries tvöfaldaði svo forskotið með frábærri afgreiðslu eftir hornspyrnu 20 mínútum síðar.
Börsungar vöknuðu til lífsins í kjölfarið og minnkaði Lamine Yamal muninn skömmu síðar. Ferran Torres jafnaði svo metin fyrir hálfleik og liðin gengu með 2-2 stöðu til búningsklefa.
Dumfries kom Inter yfir á nýjan leik á 64. mínútu en aftur svaraði Barcelona strax. Fór þá skot Raphinha í slána og af Yann Sommer markverði Inter og í markið.
Inter kom boltanum í markið á ný skömmu síðar en var það dæmt af vegna rangstöðu. Heimamenn voru líklegri til að nappa sigrinum á lokaandartökunum en meira var ekki skorað. Lokatölur 3-3 og allt opið fyrir leikinn í Mílanó.