

Mikil sorg ríkir í rúmenskum fótbolta eftir að knattspyrnuáhrifavaldurinn og ljósmyndarinn Malina Maria Guler lést aðeins 27 ára að aldri á laugardagsmorgun.
Malina var þekkt andlit í kringum FC Bihor Oradea, þar sem hún starfaði sem ljósmyndari og fréttaritari samhliða því að vera vinsæl á samfélagsmiðlum með yfir 40 þúsund fylgjendur.
Hún fylgdi liðinu grannt í gegnum hæðir og lægðir, meðal annars þegar félagið tryggði sér sæti í B-deildinni árið 2024. Auk fótboltans fjallaði hún einnig um menningarviðburði í heimaborg sinni Oradea.
Samkvæmt erlendum miðlum lést Malina eftir fall úr íbúð sinni þar í borg. Lögregla rannsakar nú málið og hefur ekki útilokað að persónuleg vandamál og veikindi hafi haft áhrif. Aðstandendur hafa greint frá því að faðir hennar hafi verið alvarlega veikur og að Malina sjálf hafi glímt við krabbamein.
FC Bihor Oradea sendi frá sér yfirlýsingu þar sem Malina var minnst fyrir fagmennsku og elju. Stuðningsmenn og samstarfsfólk hafa minnst hennar með hlýjum kveðjum á netinu. Rannsókn á andláti hennar stendur enn yfir.