
Barcelona er að ganga frá kaupum á hinum 15 ára gamla, Ajay Tavares, sóknarmanni Norwich sem hefur vakið mikla athygli meðal stórliða Evrópu.
Samkvæmt The Sun hafa bæði RB Leipzig og Borussia Dortmund fylgst grannt með Tavares, en katalónska stórveldið er nú talið hafa tryggt sér forskot í baráttunni með því að setja fram skýra framtíðarsýn fyrir leikmanninn.
Tavares hefur þegar fengið að spreyta sig með aðalliði Norwich á undirbúningstímabilinu og hefur einnig leikið fjóra landsleiki fyrir enska U-17 ára landsliðið. Hann er með portúgalskt vegabréf og getur því flutt erlendis þrátt fyrir ungan aldur. Hann vakti sérstaklega athygli þegar hann skoraði þrennu á aðeins 16 mínútum fyrir unglingalið Norwich gegn Malaga fyrr á tímabilinu.
Áætlun Barcelona er að Tavares byrji að spila með U19-liðinu, færist svo í Barcelona B og fari mögulega á lán síðar. Sú leið hefur reynst farsæl fyrir leikmenn á borð við Gavi og Lamine Yamal.