
Á meðan athyglin beinist að HM 2026 eru undirbúningur og skipulag fyrir næstu heimsmeistarakeppni þegar komið á fullt.
HM 2030 verður sögulegt mót, haldið sameiginlega á Spáni, í Portúgal og Marokkó, auk þess sem þrír leikir fara fram í Suður-Ameríku í tilefni 100 ára afmælis keppninnar.
Samkvæmt spænska miðlinum AS er Santiago Bernabeu talinn líklegasti kostur FIFA til að hýsa úrslitaleik mótsins.
Heimavöllur Real Madrid er sagður hafa forskot, meðal annars vegna náinna samskipta forseta FIFA, Gianni Infantino, og forseta Real Madrid, Florentino Perez.
Yrði af þessu myndi Bernabeu hýsa sinn annan úrslitaleik HM, en sá fyrri fór þar fram árið 1982.
Endanleg ákvörðun um leikvang úrslitaleiksins er þó ekki væntanleg fyrr en undir lok árs 2026. FIFA þarf jafnframt að taka ákvarðanir um opnunarleik, dráttinn og önnur lykilatriði.