
Fyrirhugaður leikur AC Milan og Como í ítölsku A-deildinni mun fara fram í Perth í Ástralíu í febrúar, þrátt fyrir efasemdir sem upp komu fyrr í mánuðinum. Þetta staðfestir forseti Serie A, Ezio Simonelli.
Ítalskir fjölmiðlar höfðu greint frá því að leikurinn væri í hættu vegna skilyrða sem Asíusambandið setti, meðal annars varðandi dómaramál. Serie A var ósátt við að þurfa að nota dómara frá Asíu þar sem sambandið treysti ítölskum dómurum best.
Simonelli sagði þó að málið hefði verið leyst eftir viðræður við Pierluigi Collina, fyrrverandi dómara og núverandi formann dómaranefndar FIFA. Collina fullvissaði Serie A um gæði asískra dómara og benti á tiltekna dómara sem gætu dæmt leikinn.
Leikurinn fer fram 8. febrúar eftir að ítalska knattspyrnusambandið samþykkti að færa heimaleik Milan, þar sem San Siro verður ekki tiltækur vegna opnunar Vetrarólympíuleikanna í Mílanó-Cortina.
UEFA hafði áður, með semingi, veitt leyfi fyrir leiknum, sem er hluti af tilraunum deildanna til að færa leiki á nýja markaði.