
Bruno Fernandes, fyrirliði Manchester United, segist hafa óbilandi trú á að liðið geti snúið aftur á sigurbraut og unnið stóra titla á ný.
Í viðtali við Rio Ferdinand greindi Portúgalinn frá því að hann hefði tvisvar haft raunveruleg tækifæri til að yfirgefa Old Trafford, en valið að vera áfram.
„Félagið sagði mér að það þyrfti á mér að halda og ég svaraði því með því að sýna tryggð,“ sagði Fernandes. Hann viðurkenndi þó að hann hefði viljað vinna fleiri titla á þeim tíma sem hann hefur verið hjá félaginu.
Fernandes, sem kom til United í janúar 2020, sagði að hann hefði ekki verið áfram nema vegna þess að markmið félagsins væru skýr. „Ef markmiðið væri ekki að komast aftur á toppinn og vinna titla, þá hefði ég ekki verið hér,“ sagði hann.
Hann ræddi einnig hlutverk sitt sem fyrirliði og sagði að hann leiddi með fordæmi. „Ég hleyp meira en ég kvarta,“ sagði Fernandes og bætti við að hann liti á alla innan félagsins sem jafna, frá leikmönnum til starfsfólks.