

Ólafur Jóhannesson fyrrum þjálfari FH, Vals og íslenska landsliðsins var gestur í hlaðvarpinu, Seinni Níu, þar sem hann ræddi ýmislegt.
Ólafur hefur ýmsa fjöruna sopið og er einn besti þjálfari í sögu Íslands, fyrir leiki var hann oftar en ekki nokkuð stressaður.
Hann segir frá því í viðtalinu að til að róa taugarnar hafi hann farið á rúntinn og keyrt um í fleiri klukkutíma.
„Vitið þið hvað ég gerði fyrir fótboltaleiki? Ég fór bara út í bíl og keyrði eitthvað, keyrði út í Krýsuvík og eyddi mörgum klukkutímum í bílnum,“ sagði Ólafur í viðtalinu.
Hann segir að þetta hafi komist upp í vana. „Bara einn, það mátti enginn vera með mér. Til að drepa dauða tímann eins og félagi minn sagði, ég var smá stressaður. Ég gat aldrei farið út á æfingasvæði í golfinu.“
Eftir leiki fór Ólafur reglulega í golf til að róa hugann eftir leikinn. „Svona er þetta misjafnt með mennina. Oft eftir leiki þá fór ég út á golfvöll um miðnætti og vildi bara vera einn. Það mátti enginn vera með mér, þá náði ég slökun.“