
Troy Deeney telur að Mason Greenwood eigi skilið tækifæri til að snúa aftur í enska landsliðið, þrátt fyrir alvarlegar gjörðir hans sem bundu enda á feril hans hjá enska landsliðinu og Manchester United.
Greenwood var handtekinn í janúar 2022 vegna gruns um nauðgun og líkamsárás, en ákærur voru síðar felldar niður þegar lykilvitni dró vitnisburð sinn til baka.
Hann yfirgaf United sumarið 2023 og fór til Getafe. Þaðan fór hann til Marseille, þar sem hann hefur gjörsamlega slegið í gegn.
Deeney segir í pistli í The Sun að fótboltinn megi ekki afskrifa ungt fólk að eilífu og að Greenwood eigi að fá að sanna sig á ný.
„Ef hann vill koma aftur í landsliðið þarf hann að stíga fram opinberlega, sýna að hann sé traustsins verður. Ef honum tekst að takast á við gagnrýni á hann skilið annað tækifæri,“ skrifar Deeney.
Það virðist þó ekki í kortunum samkvæmt landsliðsþjálfaranum Thomas Tuchel, sem hafnaði hugmyndinni í haust og sagði Greenwood ekki vera hluta af pælingum hans.
Talið er að Greenwood ætli að spila fyrir landslið Jamaíka.