

Mason Mount hefur varað samherja sína við og segir að sigur Manchester United gegn Crystal Palace verði að verða vendipunktur ef liðið ætlar sér að ná Meistaradeildarsæti á þessari leiktíð.
Mount skoraði sigurmarkið í 2-1 sigrinum á Selhurst Park og lyfti United upp í 7. sæti, aðeins þremur stigum frá Chelsea í þriðja sæti.
Þrátt fyrir ánægjuna með mikilvægan útisigur er Mount fullmeðvitaður um að tímabilið hjá Ruben Amorim og félögum hefur verið óstöðugt og kaflaskipt.
„Tímabilið hefur verið upp og niður, en mér finnst við vera á mun betri stað, bæði ég persónulega og hópurinn,“ sagði Mount.
„Nú verðum við að halda áfram, vinna fleiri leiki. Það er það mikilvægasta.“
„Úrslitin gegn Everton voru erfið, þannig að þetta var gífurlega mikilvægur sigur. Nú þurfum við að ýta okkur áfram og reyna að komast í topp fjögur.“