
Ibrahima Konate segir sögur um framtíð sína hafa verið blásnar upp, en hann hefur verið orðaður við brottför frá Liverpool.
Samningur Konate við Liverpool rennur út næsta sumar og frá og með janúar má hann semja við félög utan Englands um að fara þangað frítt þegar að því kemur.
Real Madrid og Bayern Munchen hafa verið nefnd til sögunnar einna helst en Konate virðist algjörlega halda því opnu að vera áfram á Anfield.
„Ég hef séð ýmislegt í fjölmiðlum undanfarið. Ég veit ekki hvaðan það kemur. Umboðsmenn mínir halda áfram að ræða við Liverpool. Ég vona að ákvörðun um framtíð mína verði tekin mjög fljótlega svo ég geti tilkynnt hana,“ segir Frakkinn.