

Stjórn knattspyrnudeildar Vals tilkynnti á samfélagsmiðlum í gær að nokkrir leikmemnn væru að kveðja kvennalið félagsins. Kristófer Acox sem leikur fyrir Val í körfubolta er óhress með þetta og vekja ummæli hans á samfélagsmiðlum mikla athygli.
„Stjórn Knattspyrnudeildar Vals vill þakka nokkrum leikmönnum kvennaliðsins sem nú kveðja félagið eftir farsælan tíma í rauðu treyjunni. Allar hafa þær lagt sitt af mörkum til að halda kvennaliði Vals í fremstu röð íslenskrar knattspyrnu undanfarin ár og verið mikilvægar fyrirmyndir bæði innan vallar og utan. Í dag renna út samningar Örnu Sifjar Ásgrímsdóttur, Fanndísar Friðriksdóttur, Jordyn Rhodes og Natöshu Anasi sem allar kveðja félagið. Samningur Elísu Viðarsdóttur rennur einnig út í dag en hún er með samningstilboð frá félaginu og bíðum við svara. Þá hefur verið tekin ákvörðun um að endurnýja ekki samning við Guðrúnu Elísabetu Björgvinsdóttur, en samningur hennar rennur út um áramótin,“ sagði í yfirlýsingu félagsins.
Guðrún Elísabet er unnusta Kristófers og því er málið honum nátengt.

Margar af þeim hafa verið í stóru hlutverki hjá Val síðustu ár en félagið ætlar í aðra átt og yngir upp lið sitt.
Körfuboltamaðurinn öflugi óttast að Valur muni ekki keppa um titla í kvennaflokki á næstu árum. „Það verður mjög áhugavert að sjá hvernig það mun ganga að keppast um titla næstu árin, eða hvort að liðið muni hreinlega bara festast í neðri deildum, miðað við ákvarðanatökur stjórnar varðandi þetta frábæra kvennalið sem hefur einhliða haldið uppi sigurhefð hjá þessari fótboltadeild félagsins síðustu ára,“ skrifaði Kristófer á Facebook síðu Vals.

Ljóst er að þessi ummæli vekja athygli og gætu skapað titring í Val en mikil samstaða hefur verið á milli deilda í félaginu í mörg ár.

Stjórn Vals horfir björtum augum til framtíðar. „Um leið og við þökkum þeim sem eru að kveðja og minnumst þeirra frábæru afreka er gott að minna sig á að framtíðin í Val er svo sannarlega björt og það verður spennandi að fylgjast með Valsliðinu á komandi árum. Við hvetjum allt Valsfólk til þess að fylkja sér að baki stelpunum og styðja þær áfram af krafti,“ segir í yfirlýsingu félagsins.