

Samkvæmt fréttum á Spáni hefur brasilíski stórstjarnan Vinícius Junior vakið athygli stórliða í ensku úrvalsdeildinni eftir að hann lét í ljós að hann væri opinn fyrir félagaskiptum frá Real Madrid.
Vinícius, sem er 25 ára, hefur átt í erfiðu sambandi við nýjan þjálfara Real Madrid, Xabi Alonso. Talið er að ágreiningurinn hafi magnast undanfarnar vikur og náð hámarki í El Clásico-sigrinum á Barcelona um helgina.
Fram kemur að Vinícius sé ósáttur við meðferð Alonso og telji sig ekki fá næga virðingu frá spænska þjálfaranum. Deilan tók á sig alvarlegt form þegar Alonso tók hann af velli tuttugu mínútum fyrir leikslok.
Myndavélar sýndu brasilíska leikmanninn furða sig opinberlega á skiptingunni og kalla til þjálfarans: „Ég? Ég? Þjálfari, ertu viss?“ Þegar hann gekk af velli sást hann síðan segja: „Alltaf ég. Ég er að fara, það er betra að ég fari.“
Vinícius gekk beint niður í leikmannagöngin í mikilli gremju en sneri síðar aftur á bekkinn fyrir lokamínúturnar.
Þessi atvik hafa orðið til þess að framtíð hans hjá Real Madrid er nú í óvissu. Nokkur af stærstu liðum Evrópu, þar á meðal úr ensku úrvalsdeildinni, fylgjast grannt með stöðunni og gætu reynt að fá hann til liðs við sig næsta sumar ef ástandið versnar.