

Rússland hefur lýst yfir áhuga á að taka við hlutverki Ítalíu sem gestgjafi EM 2032, ef upp koma vandamál með undirbúning á Ítalíu. Mótið á samkvæmt áætlun að vera haldið sameiginlega af Ítalíu og Tyrklandi, en vaxandi áhyggjur eru af stöðu og ástandi knattspyrnuleikvanga á Ítalíu.
Samkvæmt fréttum frá ítalska miðlinum Gazzetta dello Sport hafa áhyggjur aukist vegna þess að margir leikvangar á Ítalíu eru gamlir og standast ekki kröfur UEFA.
Aðeins einn af tíu fyrirhuguðum völlum hefur fengið formlega samþykki sambandsins að svo stöddu.
Í þessu samhengi hefur Rússland, þrátt fyrir að vera útilokað frá alþjóðlegri keppni af hálfu UEFA og FIFA vegna innrásarinnar í Úkraínu árið 2022, lýst sig tilbúið að stíga inn. Alexander Dyukov, forseti knattspyrnusambands Moskvu, sagði í viðtali við Sport.ru:
„Ítalía á við vandamál að stríða með leikvanga sína. Ef þeir missa réttinn til að halda mótið, þá erum við tilbúin.“
Dyukov bætti við að Rússland hafi bæði innviði og reynslu, eftir að hafa haldið HM 2018. Er þetta talið útilokaður möguleiki vegna stríðs Rússlands í Úkraínu.
Það hefur jafnframt verið rætt að Tyrkland gæti staðið eitt að mótinu, ef Ítalía nær ekki að uppfylla skilyrðin. Mál þetta er enn á umræðustigi og UEFA hefur ekki tekið formlega afstöðu.